Allt gekk á afturfótunum á lokakaflanum

Hulda Dís Þrastardóttir skoraði 7 mörk fyrir Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss missti unninn leik úr höndunum í gærkvöldi þegar liðið heimsótti Fjölni í Grafarvoginn í 1. deild kvenna í handbolta.

Jafnt var á öllum tölum upp í 5-5 þegar tæpar þrettán mínútur voru búnar af leiknum. Þá skoruðu Selfyssingar sjö mörk í röð og breyttu stöðunni úr 5-4 í 5-11. Staðan var 7-12 í hálfleik.

Selfyssingar byrjuðu vel í seinni hálfleik og náðu mest níu marka forskoti. Á lokakaflanum gekk hins vegar allt á afturfótunum og liðið skoraði aðeins eitt mark á síðustu sextán mínútunum. Fjölniskonur gengu á lagið, minnkuðu muninn smátt og smátt og skoruðu síðan sigurmarkið á lokasekúndu leiksins, 22-21.

Hulda Dís Þrastardóttir var markahæst Selfyssinga með 7/3 mörk, Katla María Magnúsdóttir skoraði 6, Rakel Guðjónsdóttir 5, Elín Krista Sigurðardóttir 2 og Agnes Sigurðardóttir 1.

Henriette Östergard varði 11 skot í marki Selfoss og var með 33% markvörslu. 

Selfoss er áfram í 3. sæti deildarinnar með 24 stig en Fjölnir er í 8. sæti með 12 stig.