„Allt er þá þrennt er“

Selfyssingar stíga sigurdans í Árbænum í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss tryggði sér í kvöld sæti í úrslitaleik Mjólkurbikars kvenna í knattspyrnu með 1-0 sigri á Fylki í hörkuleik í Árbænum í kvöld.

„Fyrri hálfleikurinn var erfiður, við vorum þungar og vorum ekki að spila okkar leik. Það var eins og það væri mikið stress í okkur og fyrstu tuttugu mínúturnar voru hreint út sagt hræðilegar, við vorum mjög ósáttar með þær. Við vorum alltaf á eftir þeim og vorum fegnar að halda núllinu í hálfleik,“ sagði Anna María Friðgeirsdóttir, fyrirliði Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

„En svo kom þetta bara í seinni hálfleik. Selfossvélin heldur áfram að malla eins og hún er búin að gera í síðustu leikjum. Við höldum hreinu og þessir 1-0 sigrar eru æðislegir,“ bætti Anna María við.

Eina mark leiksins kom á 76. mínútu þegar Anna María laumaði sér upp vinstri kantinn og átti frábæra sendingu fyrir markið sem Grace Rapp afgreiddi í netið.

„Við vitum það bæði að ég er enginn varnarmaður,“ sagði Anna María og hló. „En já, það skilar sér stundum að vera sóknarmaður í vörninni. Það skilaði marki í dag og það er alveg geggjað. Þetta var vel klárað hjá Grace,“ sagði Anna María sem er að fara í sinn þriðja bikarúrslitaleik með Selfossliðinu og á tvenn silfurverðlaun í safninu.

„Er ekki bara allt er þá þrennt er? Við tökum þessa dollu og komum með hana yfir brúnna. Það skiptir engu máli hvort það verður KR eða Þór/KA. Við leggjum úrslitaleikinn bara upp eftir okkar plani og það skiptir ekki máli hver andstæðingurinn er,“ sagði Anna María.

Selfoss fékk frábæran stuðning úr stúkunni í kvöld og Fylkisfólkið átti fullt í fangi með að „halda heimavallarréttinum“.

„Þú sérð það, það er ennþá sungið í stúkunni og leikurinn löngu búinn. Það er partý í Árbænum og full stúka af Selfyssingum. Þetta er geggjað og við erum endalaust þakklátar fyrir stuðninginn sem við fáum frá fólkinu okkar,“ sagði Anna María að lokum.

Það kemur í ljós á morgun hvort það verður KR eða Þór/KA sem verður mótherji Selfoss í bikarúrslitaleiknum á Laugardalsvellinum þann 17. ágúst næstkomandi.

Markaskorarinn Grace Rapp sækir að marki Fylkis. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinBjörguðu hrossi upp úr haughúsi
Næsta greinSkjálftahrina í Torfajökulsöskjunni