Allir flottir í Iðu í kvöld

Einar Sverrisson og Alexander Egan voru markahæstir í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Það var frábær stemning í Iðu á Selfossi í kvöld þar sem Selfoss og Jerusalem Ormož gerðu 31-31 jafntefli í fyrri leik sínum í 2. umferð Evrópubikars karla í handbolta.

Staðan í hálfleik var 14-16 og þegar tvær mínútur voru eftir leiddu gestirnir 28-31 og ekkert sem benti til annars en að þeir myndu klára leikinn. Selfyssingar voru ekki sammála, tóku leikhlé og vörðust síðan eins og hungruð ljón út um allan völl. Selfoss vann boltann þrisvar á lokakaflanum og skoraði þrjú síðustu mörkin.

Svakalega sveiflukennt
„Þetta var svakalega sveiflukennt og gríðarleg áhlaup. Við vorum að fara mjög illa með dauðafæri, spiluðum okkur mjög vel út í hornin en vorum að klikka einn á móti einum og þar gerum við bara betur í seinni leiknum. Mér fannst við samt spila sóknarleikinn gríðarlega vel en þurfum að verjast betur. Við vorum oft of flatir og dómarnir voru að leyfa snertingu þannig að við hefðum þurft að vera duglegri við að mæta þeim og brjóta bara,“ sagði Einar Sverrisson, markahæsti leikmaður Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

„Þetta er bara 50/50 í framhaldinu. Það er hálfleikur núna. Við vitum hvað við þurfum að laga en þetta getur farið á hvorn veginn sem er. Hrikalega gaman að sjá hérna fullt hús, tvö og hálft ár síðan það var síðast og strákarnir á trommunum flottir, áhorfendurnir flottir, allir flottir,“ sagði Einar sem var sjálfur flottur í kvöld.

Einar og Alexander markahæstir
Einar og Alexander Egan skoruðu báðir 8 mörk fyrir Selfoss, þar af skoraði Einar tvö af vítalínunni. Hergeir Grímsson skoraði 6 mörk, Ragnar Jóhannsson 4, Richard Sæþór Sigurðsson 3 og þeir Tryggvi Þórisson og Árni Steinn Steinþórsson skoruðu báðir 1 mark í endurkomuleik sínum eftir mislöng meiðsli.

Selfoss fékk ekki nógu mikla markvörslu í leiknum, enda lak vörnin vel á köflum. Vilius Rasimas varði 8 skot og Sölvi Ólafsson 1.

Strembin vika framundan
Selfyssingar fljúga til London á fimmtudaginn og þaðan til Zagreb í Króatíu á föstudag og þaðan tekur við rútuferð til Ormož þar sem liðin mætast á laugardag. Næsta verkefni Selfoss er hins vegar heimaleikur gegn Stjörnunni á miðvikudag, þannig að það er stíf dagskrá framundan hjá liðinu.

Fyrri greinGul viðvörun: Líklegt að vegum verði lokað
Næsta greinHellisheiði lokuð til austurs