„Allir á nálum fyrir leikinn“

„Þetta var mikill baráttuleikur og gæðin liðu kannski aðeins fyrir það,“ sagði Lárus Jónsson, þjálfari Hamars, eftir sigurinn á FSu í 1. deild karla í körfubolta í kvöld.

„Þetta var týpískur grannaslagur og allir á nálum yfir að vera að fara að spila. Mér fannst við vera tilbúnari í leikinn og það kom á daginn að liðið sem barðist meira það vann þennan leik,“ sagði Lárus.

Þrátt fyrir mörg mistök sýndu bæði lið fína kafla inn á milli. Hamar náði t.d. tuttugu stiga forskoti í fyrri hálfleik en gekk samt illa að rífa gestina almennilega frá sér.

„FSu er hörkulið og þeir koma alltaf til baka. Það er enginn að fara að slátra þessu liði. Við vorum aðeins of kærulausir á köflum og hleyptum þeim inn í þetta. Það kemur ekkert af sjálfu sér og menn verða að leggja sig fram, sama hvað þeir heita,“ sagði þjálfarinn sem þurfti öðru hverju að brýna sína menn í leikhléum.

Hamarsliðið hefur ekki byrjað vel í vetur en þetta var annar sigur liðsins sem er nú um miðja deild. „Góðir hlutir gerast hægt. Við erum betri núna en í fyrstu leikjunum og það skipti miklu máli í kvöld að fá framlag frá stóru mönnunum í liðinu, Ragga og Svavari. Það hefur vantað en þeir voru mjög góðir í kvöld,“ sagði Lárus að lokum.

Fyrri greinHamarsmenn heilt yfir betri
Næsta greinGríðarlegt haglél á Eyrarbakka