„Allir að gefa sitt í þetta“

Selfoss vann sinn fyrsta sigur í Olís-deild karla í handbolta í vetur þegar Fjölnir kom í heimsókn í Vallaskóla í kvöld. Lokatölur urðu 34-24.

„Liðsheildin hjá okkur var að virka vel og það voru allir að gefa sitt í þetta. Stemmningin í húsinu var ótrúleg. Þetta minnti mig bara á það þegar ég var að spila á móti Selfoss með KA fyrir tuttugu og eitthvað árum síðan,“ sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss, léttur í leikslok.

„Það er það sem skiptir svo miklu máli, að fá stuðning frá fólkinu okkar og ég þakka kærlega fyrir það. Það er gott að byrja á sigri á heimavelli, þetta er algjör gryfja og það verður örugglega erfitt fyrir lið að koma hingað,“ bætti Patrekur við.

Selfoss komst í 6-0 en Fjölnir skoraði ekki mark fyrstu sextán mínúturnar. Gestirnir áttu svo góðan kafla undir lok fyrri hálfleiks og minnkuðu muninn í 14-11 fyrir leikhlé.

Í seinni hálfleik var aldrei spurning hvort liðið væri sterkara. Selfoss hafði algjöra yfirburði og munurinn varð mestur tólf mörk, 32-30.

Teitur Örn Einarsson var frábær í liði Selfoss og skoraði 13/7 mörk. Elvar Örn Jónsson skoraði 7, Atli Ævar Ingólfsson 5, Haukur Þrastarson 3, Árni Geir Hilmarsson og Guðni Ingvarsson 2 og þeir Eyvindur Hrannar Gunnarsson og Guðjón Baldur Ómarsson skoruðu 1 mark hvor.

Sölvi Ólafsson fór á kostum í marki Selfoss og varði 20/2 skot.

Fyrri greinTap í lokaumferðinni á Ólafsfirði
Næsta greinVerulegar – Ný sýning í Listasafni Árnesinga