Allar varnir lágu niðri

Davíð Arnar Ágústsson skoraði 13 stig fyrir Þór. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þór Þorlákshöfn hóf keppni í úrvalsdeild karla í körfubolta þennan veturinn í kvöld þegar Breiðablik kom í heimsókn í Icelandic Glacial höllina.

Þórsarar áttu undir högg að sækja framan af leiknum og gestirnir leiddu allan tímann. Breiðablik var yfir, 15-31 eftir 1. leikhluta en Þór náði að klóra í bakkann í 2. leikhluta og staðan var 46-53 í hálfleik.

Allar varnir lágu niðri hjá Þórsurum í upphafi seinni hálfleiks, en Breiðablik skoraði 34 stig í 3. leikhluta og leiddi 75-87 að honum loknum. Þór fylgdi í humátt á eftir gestunum allan tímann en náði aldrei að brúa bilið og lokatölur leiksins urðu 100-111.

Pablo Hernandez kom sterkur af bekknum hjá Þór og var bæði stiga og frákastahæstur, með 28 stig og 10 fráköst.

Tölfræði Þórs: Pablo Hernandez 28/10 fráköst, Adam Rönnqvist 20/4 fráköst/5 stoðsendingar, Tómas Valur Þrastarson 14, Davíð Arnar Ágústsson 13, Alonzo Walker 10/8 fráköst, Daníel Ágúst Halldórsson 10/5 stoðsendingar, Fotios Lampropoulos 4/8 fráköst, Emil Karel Einarsson 1.

Fyrri greinSamstöðumótmæli í ML
Næsta greinStutt í lengstu sviflínu landsins