Allar varnir lágu niðri í Hveragerði

Everage Richardson skoraði 20 stig fyrir Hamar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar steinlá á heimavelli þegar Breiðablik kom í heimsókn í toppbaráttu 1. deildar karla í körfubolta í kvöld. Á sama tíma tapaði Selfoss naumlega gegn Vestra.

Það var mikið fjör í Hveragerði og allar varnir lágu niðri því Breiðablik náði að skora 125 stig á móti 101 stigi Hamars. Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik en staðan í leikhléi var 49-53. Í 3. leikhluta stungu Blikar af og staðan að honum loknum var 71-93. Liðin slógu hvergi af í sókninni í 4. leikhluta en vörn Hamars var áfram hriplek og þeim tókst ekki að minnka muninn.

Everage Richardson var stigahæstur hjá Hamri með 26 stig, 9 fráköst og 5 stoðsendingar. Ragnar Ragnarsson skoraði 22 stig, Pálmi Geir Jónsson 17 auk 12 frákasta, Toni Jelenkovic skoraði 17 og Björn Ásgeir Ásgeirsson 12.

Spennuleikur á Selfossi
Selfoss og Vestri mættust í öllu jafnari leik í Gjánni á Selfossi í kvöld. Gestirnir byrjuðu betur í leiknum en Selfoss svaraði fyrir sig í 2. leikhluta og staðan var 34-34 í hálfleik. Seinni hálfleikurinn var jafn, Selfoss var skrefinu á undan í 3. leikhluta en um miðjan 4. leikhluta náði Vestri vænu áhlaupi og náði átta stiga forskoti sem hélst nánast til leiksloka.

Christian Cunningham var stigahæstur hjá Selfossi með 16 stig, 14 fráköst og 3 varin skot, Arnór Bjarki Ívarsson og Kristijan Vladovic skoruðu báðir 12 stig.

Blikar á toppinn
Breiðablik hrifsaði toppsæti deildarinnar til sín í kvöld og hefur 20 stig en Hamar er í 3. sæti með 18 stig. Vestri er í 4. sæti með 12 stig og Selfoss í því fimmta með 8 stig.

Fyrri greinSamið við björgunarsveitir í Bláskógabyggð
Næsta greinSterkur sigur Þórsara