Allar varnir lágu niðri

Anton Breki Hjaltason. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Eftir frábæra byrjun í 1. deild karla í handbolta var Selfoss 2 kippt harkalega niður á jörðina þegar liðið heimsótti Gróttu á Seltjarnarnesið í kvöld. Grótta skoraði sjaldséð 51 mark og sigraði 51-27.

Heimamenn byrjuðu leikinn af krafti, þeir leiddu allan tímann og eftir tæpar átján mínútur var munurinn orðinn tíu mörk, 18-8. Allar varnir lágu niðri hjá þeim vínrauðu og munurinn varð mestur þrettán mörk í fyrri hálfleik. Staðan í hálfleik var 29-16.

Grótta skoraði fyrstu sex mörkin í seinni hálfleik og allar vonir Selfoss 2 um endurkomu kulnuðu hratt. Seltirningar gáfu enn frekar í og að lokum skildu 24 mörk liðin að.

Skarphéðinn Steinn Sveinsson og Hákon Garri Gestsson voru markahæstir 2elfyssinga með 8 mörk, Anton Breki Hjaltason skoraði 4, Dagur Rafn Gíslason 3, Daníel Arnar Víðisson 2 og þeir Kristján E. Kristjánsson og Ragnar Hilmarsson skoruðu 1 mark hvor. EInar Gunnar Gunnlaugsson varði 6 skot í marki Selfoss og Ísak Kristinn Jónsson 1.

Eftir þrjár umferðir er Selfoss 2 í 5. sæti 1. deildarinnar með 4 stig en Grótta er í toppsætinu með fullt hús stiga, 6 stig.

Fyrri greinReyndu að smygla 6 kílóum af kókaíni í gegnum Þorlákshöfn
Næsta greinFlygiltónleikar gera lukku hjá Mýrdælingum