„Allar leiðir liggja á Selfoss“

Keppni á Unglingalandsmóti UMFÍ á Selfossi hefst á föstudagsmorgun og má búast við því að straumur gesta á mótið hefjist á miðvikudaginn.

Sveitarfélagið Árborg hélt blaðamannafund í dag á íþróttavallarsvæðinu við Engjaveg og þar var kynnt uppbygging síðustu ára og farið í saumana á undirbúningi mótsins.

Eyþór Arnalds, formaður bæjarráðs Árborgar, segir að eitt lykilatriða í vel heppnuðu mótshaldi sé sú umgjörð sem sköpuð hefur verið í bænum en gríðarleg uppbygging hefur verið á íþróttamannvirkjum á síðustu árum.

„Varðandi aðstöðuna hér þá er búið að setja rétt um 430 milljónir króna í hana núna frá árinu 2009 og á næsta ári verður sú tala komin í 496 milljónir. Þetta eru gríðarlegar fjárhæðir en við teljum að við getum fengið góða ávöxtun með því góða íþrótta- og forvarnarstarfi sem er unnið hérna,“ sagði Eyþór meðal annars.

„Við erum að sjá að það er mikill kraftur í félögunum á svæðinu og nefni ég sem dæmi Hestamannafélagið Sleipni sem hefur byggt upp sitt svæði að mestu leiti í sjálfboðavinnu en með góðum stuðningi sveitarfélagsins og motocrossdeild Ungmennafélags Selfoss sem hefur sömuleiðis fengið stuðning sveitarfélagsins og spilað gríðarlega vel úr honum í uppbyggingu á sínu svæði,“ bætti Eyþór við og rifjaði síðan upp vangaveltur sem kviknuðu fyrir nokkrum árum um að færa íþróttaleikvanginn á Selfossi suður fyrir Selfossflugvöll.

„Það er ekki sjálfsagt að við erum hér núna við Engjaveginn á einu flottasta svæði landsins til framtíðar litið. Það er ekki langt síðan stefnan var tekin á að fara með svæðið út fyrir bæinn og það hefði verið hræðilegt mál en sem betur fer var ákveðið að hverfa af þeirri braut og byggja upp hér við Engjaveg. Þetta svæði eru í göngufæri fyrir börn og aðra bæjarbúa og hér slær íþróttahjartað í bænum,“ sagði Eyþór.

Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri sveitarfélagsins, á sæti í undibúningsnefnd landsmótanna á Selfossi 2012 og 2013. Ásta segir gríðarlega mikla undirbúningsvinnu að baki og það muni skila sér í góðu móti með frábærri umgjörð.

„Skráningar eru fleiri en þær hafa nokkru sinni verið á unglingalandsmóti en í hádeginu í dag voru þær að nálgast 2.000 og hafði þá ekki allt verið tekið saman,” sagði Ásta. „Það er ljóst að hér verður gríðarlega mikið af gestum, það er búið að gera stórt og vel búið tjaldsvæði til þess að taka á móti öllum þessum fjölda og þar á að geta farið vel um alla.“

Búast má við miklum umferðarþunga vegna mótsins og segir Ásta að áhersla hafi verið lögð á að benda gestum að það séu nokkrar leiðir sem liggja á Selfoss.

„Reyndar liggja allar leiðir á Selfoss um helgina – ekki bara Suðurlandsvegur um Hellisheiði. Við hvetjum fólk sem er að koma af höfuðborgarsvæðinu til þess að fara Þrengslaveginn og þá sem koma af Suðurnesjunum að fara Suðurstrandarveginn. Þannig dreifum við umferðinni og minnkum álagið á Ölfusárbrú og það liggur svo vel við að fara þessar leiðir á Selfoss því að tjaldsvæðið fyrir mótið er hér syðst í bænum og væntanlega fyrsta stopp hjá flestum gestanna.“

Keppni á Unglingalandsmótinu hefst kl. 8 á föstudagsmorgun en mótið verður sett á aðalvellinum á Selfossi kl. 20 á föstudagskvöld. Mótinu lýkur svo á sunnudagskvöld með skemmtun og gríðarlegri flugeldasýningu.