Algjört hrun hjá Selfyssingum

Selfyssingar misstu niður 2-0 forystu og fengu á sig fjögur mörk á sex mínútna kafla þegar Þór Akureyri kom í heimsókn á JÁVERK-völlinn í Inkasso-deild karla í knattspyrnu í dag.

Selfyssingar litu frábærlega út í fyrri hálfleik og komust verðskuldað 2-0 yfir. Þorsteinn Daníel Þorsteinsson skoraði fyrra markið með skalla á 19. mínútu eftir frábæra aukaspyrnu Stefáns Ragnars Guðlaugssonar. Þorsteinn lagði svo upp seinna markið með hornspyrnu á 27. mínútu sem rataði beint á kollinn á Guðmundi Axel Hilmarssyni á fjærstönginni. Selfoss leiddi 2-0 í hálfleik en Þórsarar áttu sprett undir lok fyrri hálfleiks þar sem Selfyssingar björguðu meðal annars á línu.

Þórsliðið var mun ákveðnara í upphafi síðari hálfleiks og hurðirnar voru búnar að skella nálægt hælunum á Selfyssingum í tvígang áður en gestirnir minnkuðu muninn með þrumuskoti úr teignum á 64. mínútu. Selfyssingar héldu sjó í nokkrar mínútur eftir það en í kjölfarið varð eitt mesta hrun sem sést hefur á Selfossvelli þegar Þórsarar skoruðu fjögur mörk á sex mínútna kafla og komust í 2-5. Það stóð ekki steinn yfir steini í Selfossvörninni og Þórsarar kláruðu leikinn skellihlæjandi. Varamaðurinn Kristófer Páll Viðarsson minnkaði muninn fyrir Selfoss á 88. mínútu en það skipti engu máli og Þórsarar fögnuðu vel í lokin.

Selfoss hefur 8 stig í 10. sæti deildarinnar en Þór er í 4. sætinu með 17 stig.

Fyrri greinRagnheiður með brons í Gautaborg
Næsta greinDagur, Stefán og Fjóla stigahæst á héraðsmóti í frjálsum