Álfrún bætti Íslandsmetið í sleggju

Álfrún Diljá Kristínardóttir eftir metkastið á Selfossvelli í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Álfrún Diljá Kristínardóttir, Umf. Selfoss, setti í dag nýtt Íslandsmet í sleggjukasti 12 ára stúlkna á bætingamóti á Selfossvelli.

Álfrún Diljá kastaði 31,43 m og bætti fimm ára gamalt Íslandsmet Berglindar Gunnarsdóttur, UMSS, um 2,02 metra.

Með þessum árangri bætti Álfrún Diljá sitt eigið HSK met í flokki 12 ára stúlkna en fyrr í sumar kastaði hún 28,70 m. Metkastið í dag er einnig HSK met í flokki 13 ára stúlkna en fyrra metið í þeim flokki átti Eva María Baldursdóttir, Umf. Selfoss, 29,78 m.

Því má svo bæta við þetta að Álfrún Diljá á einnig HSK metið í flokki 11 ára stúlkna, sem er 20,94 m sett í fyrrasumar, og hefur hún því bætt sig um tæplega 10,5 metra í sleggjunni á milli ára.

Fyrri greinLögðu hald á sex kíló af hassi
Næsta greinStefán og Jana Lind Skjaldarhafar