Alfreð hættir með Selfossliðið

Tíminn búinn Alfreð Elías á hliðarlínunni í sigurleiknum í Árbænum í gærkvöldi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari kvennaliðs Selfoss í knattspyrnu, mun hætta þjálfun liðsins að loknu yfirstandandi keppnistímabili. Hann tilkynnti þetta á Facebooksíðu sinni í morgun.

„Ég hef ákveðið að það sé tímabært að breyta til í haust. Ástæðan er einföld. Eftir fimm góð ár er það einfaldlega tímabært,“ segir Alfreð. „Samstarf mitt við liðið, aðstoðarfólk og stjórn hefur verið með miklum ágætum. Það er með miklu þakklæti í huga sem ég kveð gott lið og góða samstarfsmenn síðar í haust. Lið sem efalaust mun láta vel til sín taka á næstu árum.“

Alfreð hefur þjálfað lið Selfoss undanfarin fimm ár með frábærum árangri. Liðið fór beint upp úr 1. deildinni á fyrsta tímabili hans, varð bikarmeistari 2019 og meistari meistaranna 2020 og hefur fest sig í sessi sem eitt af toppliðunum í íslenskri kvennaknattspyrnu.

Fyrri greinÖlfusárbrú lokað í kvöld
Næsta grein84 í einangrun á Suðurlandi