Alfreð framlengir og ungir leikmenn skrifa undir

Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari meistaraflokks Ægis í Þorlákshöfn, skrifaði í gær undir nýjan tveggja ára samning við félagið. Við sama tilefni skrifuðu sjö leikmenn undir samning.

Alfreð hefur verið þjálfari Ægis undanfarin þrjú tímabil, kom liðinu upp úr 3. deild árið 2012 og í sumar náði liðið að halda sæti sínu í 2. deild. Ægismenn stefna á að byggja ofan á þann árangur á næsta tímabili.

Guðbjartur Örn Einarsson, formaður Ægis, sagði í samtali við sunnlenska.is að verið sé að líta til framtíðar með leikmannasamningunum sem gerðir voru í gær en sex leikmannana eru ungir heimamenn sem skrifuðu undir tveggja ára samning við félagið.

„Við bindum miklar vonir við að þessir leikmenn verði burðarásar í liði meistaraflokks á næstu árum, enda eiga þeir framtíðina fyrir sér. Þetta eru góðar fréttir fyrir félagið og markar mikil tímamót fyrir Ægi,“ sagði Guðbjartur Örn.

Þessir ungu og efnilegu leikmenn eru Þorkell Þráinsson og Fannar Haraldur Davíðsson, fæddir 1994 og þeir Arnar Logi Sveinsson, Axel Örn Sæmundsson, Gerard Athan Madrazo og Sindri Freyr Ágústsson, allir fæddir 1997.

Einnig framlengdu Ægismenn samning sinn við Walesverjann Liam Killa sem gekk til liðs við félagið í fyrra. Ægi er mikill fengur í Killa en hann er harður og duglegur varnar- og miðjumaður sem styrkir leikmannahópinn mikið.

Fyrri grein50 milljónir í ljósleiðara
Næsta greinFrábær fyrri hálfleikur lagði grunninn að öruggum sigri