Áhuginn í lágmarki eftir rigningarsumar

„Það sem ég hef mestar áhyggjur eftir sumarið er mikil fækkun í barna- og unglingastarfi hjá okkur og ég veit að aðrir klúbbar eru að glíma við það sama.“

Þetta segir Hlynur Geir Hjartarson, framkvæmdastjóri Golfklúbbs Selfoss, þegar hann var inntur eftir því hvað stæði upp úr á golfsumrinu 2013 í viðtali á kylfingur.is.

„Veðrið hefur verið með þeim hætti alveg frá því í maí að krakkarnir hafa misst áhugann á að vera úti þessu veðri og við þessu þarf að bregðast í haust og vetur,“ bætti Hlynur við. Hann leynir því ekki að samdráttur sé í tekjum hjá klúbbnum eftir erfitt sumar og það verði ánægjulegt ef reksturinn verði réttu meginn við núllið.

„Ég hlýt að fá orðu ef það tekst að vera réttu meginn við núllið á aðalfundi klúbbsins. Það hefur verið samdráttur í vallar – og mótagjöldum ef miðað er við árið í fyrra. Það eru líklega 40-50 dagar frá því í maí þar sem að það hefur ekki verið veður til þess að æfa eða spila golf hérna á hjá okkur. Það gefur auga leið að ferðamenn sem hafa verið duglegir að heimsækja okkur á góðviðrisdögum koma ekki til okkar í roki og rigningu. Það vantar örugglega um 1000 heimsóknir til okkar ef miðað er við árið 2012.“

Hlynur segir að félagafjöldinn í GOS sé á uppleið og um 250 hafi bæst í hópinn og þar af séu um 70 nýjar konur sem sé ánægjulegt. Hann leggur áherslu á að fækkun í barna – og unglingastarfi sé áhyggjuefni sem þurfi að bregðast við. „Krakkarnir eru framtíðin og án þeirra verður engin endurnýjum hjá okkur. Það virðist sem að áhuginn sé í lágmarki hjá þeim eftir þetta rigningarsumar – og aðrar íþróttir s.s. fótbolti toga meira í krakkana. Það gæti líka verið að foreldrar hafi ekki lengur ráð á því að vera með börnin sín í mörgum íþróttum – vegna kostnaðar. Og þessum hlutum þurfum við að velta fyrir okkur. Sem dæmi má nefna að við vorum með allt að 100 krakka sem tóku þátt í Suðurlandsmótaröð sem sett var á laggirnar fyrir nokkrum misserum. Í sumar voru þetta 30-40 sem voru að mæta og það er gríðarleg fækkun,“ sagði Hlynur Geir Hjartarson.

Fyrri greinGott sumar í Ölfusá
Næsta greinSigurður Már ráðinn upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar