Áheitahlaup í nafla alheimsins

„Þessi hugmynd spratt upp eftir gosið í Eyjafjallajökli þegar fólk var hætt að koma austur vegna frétta af öskufjúki,“ segir Jón Gísli Harðarson, annar stofnenda Naflahlaupsins sem haldið verður á Hvolsvelli á laugardaginn.

Hann og Ómar Smári Jónsson stóðu fyrst fyrir hlaupinu árið 2010 og er þetta því í þriðja skiptið sem það verður hlaupið.

Jón segist hafa verið í Danmörku þegar gaus í Eyjafjallajökli. Þar eins og annars var fréttaflutningur mikil frá heimabyggð hans. „Maður er auðvitað stoltur af sinni heimabyggð,“ segir Jón Gísli. Þá var Hvolsvöllur nafli alheimsins og þaðan er nafnið á hlaupinu dregið – Naflahlaupið.

„Ég kom svo heim og byrjaði að æfa. Ég hljóp einu sinni 10 km áður ég hljóp hálfmaraþonið.“

Boðið er uppá þrjár hlaupaleiðir. Fyrsta leiðin og jafnframt sú lengsta kallast Naflahringurinn. Þá er hlaupið 21 km. og er ræst út kl. 10 frá Leikskólanum Örk á Hvolsvelli.

Önnur leiðin kallast Naflastrengurinn og er hún 13 km. löng. Hlauparar sem hlaupa þá leið eru ræstir út frá Leikskólanum Örk kl. 10.30.

Þriðja leiðin kallast Naflakuskið og er ræst út frá skógræktarstöðinni á Tumastöðum kl. 11.

Hlaupara geta látið heita á sig og rennur peningurinn allur í fyrirfram ákveðið málefni. Þetta byrjaði með því að Jón og Ómar skoruðu á hvorn annan að hinn myndi borga fimm hundruð krónur fyrir hvern kílómeter sem hlaupin var.

Þetta árið verður það unglingadeild Dagrenningar sem mun njóta góðs af Naflahlaupinu.

Sjá nánar í Sunnlenska fréttablaðinu.