Ágúst skoraði og fékk rautt

Ægir vann góðan sigur á Völsungi á útivelli í 2. deild karla í knattspyrnu í kvöld.

Ágúst Freyr Hallsson kom Ægi yfir strax á 3. mínútu leiksins og reyndist það eina mark fyrri hálfleiks.

Á 54. mínútu fékk leikmaður Völsungs rautt spjald fyrir að klípa Sigurð Eyberg Guðlaugsson fyrir neðan beltisstað og manni fleiri náðu Ægismenn að komast í 0-2 á 75. mínútu. Aco Pandurevic kom þá knettinum í netið.

Völsungar minnkuðu muninn á 80. mínútu með marki úr vítaspyrnu og lokatölur leiksins urðu 1-2. Áður en flautað var til leiksloka voru Ægismenn orðnir tíu, rétt eins og heimamenn, en Ágústi Frey var vísað af velli á lokamínútu leiksins eftir að hann hafði lent í stimpingum við mótherja.

Eftir sigurinn sigla Ægismenn nokkuð lygnan sjó um miðja deild. Þorlákshafnarliðið er í 6. sæti deildarinnar með 19 stig.

Fyrri greinMikilvæg stig í sarpinn
Næsta greinCorpo di Strumenti með fjölbreytta dagskrá