Agnes bætti 14 ára gamalt met

Agnes Erlingsdóttir, HSK/Selfoss, setti nýtt Skarphéðinsmet í 800 m hlaupi á Meistaramóti 15-22 ára í frjálsum íþróttum innanhúss í dag.

Agnes hljóp á 2:18,10 mín og sigraði í ungkvennaflokki. Tíminn er HSK met í þeim flokki og sömuleiðis í fullorðinsflokki. Agnes bætti þar 14 ára gamalt með Guðrúnar Báru Skúladóttur sem var 2:18,7 mín.

HSK/Selfoss vann tvöfaldan sigur í kúluvarpi 15 ára stúlkna í dag. Thelma Björk Einarsdóttir sigraði með kast upp á 11,35 m og Andrea Sól Marteinsdóttir varð önnur, kastaði 11,19 m.

Kristinn Þór Kristinsson sigraði í 800 m hlaupi 20-22 ára ungkarla, hljóp á 1:55,80 mín.

Fjóla Signý Hannesdóttir vann þrenn silfurverðlaun í dag. Hún varð önnur í langstökki ungkvenna, stökk 5,13 m. Í 60 m hlaupi þar sem hún hljóp á 8,33 sek og í 200 m hlaupi þar sem hún hljóp á 27,02 sek.

Mjótt var á mununum í 60 m hlaupi 15 ára stúlkna þar sem Guðrún Heiða Bjarnadóttir var 0,01 sekúndu frá sigri. Hún varð í 2. sæti á 8,29 sek og Sólveig Helga Guðjónsdóttir þriðja á 8,40 sek. Guðrún Heiða hreppti einnig bronsverðlaun í langstökki þegar hún stökk 4,84 m og Sólveig Helga vann bronsverðlaun í 800 m hlaupi þegar hún hljóp á 2:36,74 mín.

Anton Kárason, HSK/Selfoss, varð þriðji í hástökki ungkarla, 18-19 ára, stökk 1,82 m.

Thelma Dís Sigurðardóttir varð þriðja í 800 m hlaupi ungkvenna á 2:56,95 mín.

Mótið fer fram í Laugardalshöllinni um helgina og lýkur á morgun, sunnudag.

Fyrri greinSkoða möguleika á hitaveitu
Næsta greinLeiðsögn og samræður í Listasafninu