Agnes bætti sig á mótum í Noregi

Agnes Erlingsdóttir, frjálsíþróttakona úr Laugdælum, er í feiknastuði þessa dagana. Agnes keppti á fjórum mótum í maí í 400 og 800 m hlaupum og bætti sig á öllum mótunum.

Agnes er nú við æfingar og nám í Noregi og hefur æft vel í vetur og er að uppskera vel strax í upphafi keppnistímabils.

Fyrsta mótið var æfingamót í Ås 14. maí. Þar keppti Agnes í 400 m hlaupi, rauf 60 sekúndna múrinn í fyrsta sinn og hljóp á 59,51 sek en hún átti áður 61,15 sek. Þann 20. maí keppti hún aftur í 400 m hlaupi í Jessheim þar sem hún hljóp nánast keppnislaust á góðri bætingu, 59,04 sek.

Fimmtudaginn 24. maí var komið að hennar aðalgrein, 800m hlaupi. Þá var Agnesi boðið að keppa á sterku móti á Bislett leikvanginum fræga í Osló, svokölluðu Hyundai Grandprix móti. Þar hljóp hún í sterkum riðli á tímanum 2:17,50 mín sem er bæting utanhúss og alveg við HSK met í 20-22 ára flokki stúlkna, en metið er 2:17,3 mín sem Aðalbjörg Hafsteinsdóttir frá Selfossi á. HSK metið í kvennaflokki er 2:14,09 mín í eigu Unnar Stefánsdóttur Samhygð.

Fjórða mótið á stuttum tíma var svo 27. maí í Lilleström þar sem hún keppti í 400 m hlaupi. Agnes var ekki að breyta út af vananum heldur bætti sig í þriðja sinn á hálfum mánuði í 400m hlaupi, fór vegalengdina að þessu sinni á 58,77 sek.