Agnar Bragi hættir vegna meiðsla

Miðvörðurinn Agnar Bragi Magnússon verður frá keppni næstu 1-2 mánuðina vegna meiðsla og er því hættur að leika með Selfyssingum í Pepsi-deildinni í knattspyrnu.

Agnar Bragi stundar háskólanám í Bandaríkjunum og fer þangað aftur í ágúst. Hann hefur leikið fyrir Selfoss undanfarin sex ár en verið mikið frá síðustu misseri vegna meiðsla.

„[Þetta] þýðir að ég hef spilað minn síðasta leik fyrir Selfoss,“ segir Agnar Bragi í færslu á Facebook síðu sinni þar sem hann þakkar Selfyssingum innan vallar sem utan fyrir góð sex ár á Selfossi. „Það býr miklu miklu meira í þessu liði en það hefur verið að sýna í sumar og ef allir snúa bökum saman þá getur þessi flotti klúbbur vel verið í efstu deild að ári,“ segir Agnar Bragi.

Þetta eru slæm tíðindi fyrir Selfyssinga sem glímt hafa við mikil meiðsli í varnarlínunni. Fyrirliðinn Stefán Ragnar verður frá næstu vikurnar, sem og Ivar Skjerve en í síðustu viku gekk hollenski miðvörðurinn Bernard Brons í raðir félagsins til að fylla í skörðin sem Stefán og Agnar Bragi skilja eftir sig. Samkvæmt heimildum Sunnlenska eru Selfyssingar að leita fyrir sér með fleiri leikmenn frá Noregi. Félagaskiptaglugginn lokar aftur 1. ágúst.

Fyrri greinStilla á Stokkalæk
Næsta greinÅsa sýnir í Hveragerði