Agla Ósk Ólafsdóttir, Judofélagi Suðurlands, var valin efnilegasta júdókona ársins 2025 hjá Judosambandi Íslands. Verðlaunin voru afhent á lokahófi JSÍ í byrjun desember.
Agla deildi verðlaununum með Emmu Thuringer úr Judófélagi Reykjavíkur.
Agla kom með mjög öflugum hætti inn á sjónarsviðið árið 2025 og vann fjölmarga titla. Hún varð meðal annars Íslandsmeistari U18 í -63 kg flokki. Agla keppti einnig á mjög sterku móti í Lundi í Svíþjóð og hafði sigur í fyrstu tveimur glímum sínum.
Þjálfari Öglu á mótinu í Lundi var Sara Ingólfsdóttir sem jafnframt sótti þjálfaranámskeið sem haldið var í kjölfar mótsins ásamt æfingabúðum. Judofélag Suðurlands hefur átt fleiri sigursælar konur síðustu misserin og má segja að kvennasveit félagsins sé sannkölluð valkyrjusveit. Forráðamenn félagsins hvetja allar konur og ungar stúlkur til að læra sjálfsvörn, en æft er kl. 18:30 í World Class á Selfossi alla virka daga.

