„Ágætt veganesti fyrir næsta leik“

Arnar Gunnarsson, þjálfari, var þokkalega ánægður með sína menn eftir stórsigur á Fylki í 1. deild karla í handbolta í kvöld, 29-14.

„Þetta var ágætt, seinni hálfleikur sérstaklega þar sem vörnin og markvarslan voru fín. Hins vegar klúðruðum við allt of mörgum dauðafærum sem við þurfum að klára og þannig var það líka í fyrsta leiknum á móti Gróttu,“ sagði Arnar í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

Selfyssingar voru nokkrum klössum ofar en Fylkisliðið í kvöld en þrátt fyrir það var liðið ekki að sýna sínar bestu hliðar í fyrri hálfleik.

„Við vorum ekki nógu einbeittir í fyrri hálfleik og menn virtust ekki alveg klárir í þetta. Svo urðu tvívegis tafir á leiknum sem urðu til þess að menn misstu kannski aðeins taktinn. Það er reyndar engin afsökun því það á að bitna á báðum liðunum,“ sagði Arnar. „Annars var þessi leikur ágætt vegarnesti fyrir næsta leik.“

Selfyssingar hafa nú leikið tvo leiki í deildinni og þjálfari er ánægður með hvernig liðið hefur farið af stað.

„Við erum að spila góða vörn og fá góða markvörslu og þá er langleiðin komin. Nú þarf bara sóknarleikurinn að slípast betur. Það er nóg eftir til að vinna í, en þetta er ágætis byrjun. Við eigum annar heimaleikur næst og nú er bara að sækja sigur þar.“

Fyrri greinSelfossvörnin hélt Fylki í skefjum
Næsta greinGuðrúnarbotnar skjálfa