„Ágætis árangur miðað við aldur og fyrri störf“

Hinn 44 ára gamli Ólafur Guðmundsson, liðsstjóri HSK-liðsins í frjálsum, kom skemmtilega á óvart á landsmótinu á Selfossi en hann varð stigahæsti karlinn í frjálsíþróttakeppninni.

„Ég átti ekki von á þessu, þetta var bara bónus og alls ekki planið en samt mjög gaman fyrir mig. Aðalatriðið var að halda utan um liðið og ýta því áfram og sjá árangur þeirra. Keppendur HSK stóðu sig allir í einu orði frábærlega,“ sagði Ólafur í samtali við sunnlenska.is eftir mótið.

Hver keppandi má keppa í fimm íþróttagreinum í frjálsíþróttakeppninni, auk boðhlaupa og fær sigurvegarinn í hverri grein 10 stig.

„Markmiðið mitt fyrir mótið var að vera með og reyna að gera mitt besta á milli þess sem maður væri að hvetja liðið. Það sem stóð uppúr hjá mér var að ég hljóp í gegnum grindina án þess að meiða mig og í þrístökkinu líka. Það er bara ágætis árangur miðað við aldur og fyrri störf,“ segir Ólafur en hann komst á verðlaunapall í báðum þessum greinum, vann silfur í 110 m grindahlaupi og brons í þrístökki. Auk þess safnaði hann stigum í kringlukasti, sleggjukasti og kúluvarpi.

Frjálsíþróttakeppnin var mjög spennandi og úrslitin í stigakeppninni réðust ekki fyrr en í lokagreininni sem var 1.000 m boðhlaup. ÍBR sigraði í karlakeppninni en HSK í kvennakeppninni og HSK hafði einnig sigur í samanlagðri stigakeppni í frjálsum.

„Eftir tvo daga leiddum við með fimmtíu stigum en við vissum að það yrði á brattann að sækja því að sveiflurnar í þessu eru svo miklar. En þetta endaði á glæsilegum boðhlaupum og ég er óendanlega stoltur af sveitunum og liðinu öllu. Þetta er frábært og við náðum okkar markmiði. Á síðasta landsmóti urðum við í 4. sæti og strax þá settum við markið á að vinna þetta mót og það tókst. Ég er hrikalega ánægður,“ sagði Ólafur að lokum.

Fyrri greinVerðlaunaleikur í Listasafninu
Næsta greinLandsmótinu slitið – HSK vann heildarstigakeppnina