Afturelding sigraði á Ragnarsmótinu

Úrslit Ragnarsmótsins í handbolta réðust í vítakeppni þar sem Afturelding hafði betur gegn Fram. Lokatölur leiksins voru 33-30. Selfoss varð í 6. og neðsta sæti mótsins.

Í fyrsta leik dagsins, um 5. sætið, mættust Selfoss og Valur. Staðan eftir venjulegan leiktíma var 24-24 eftir að Valur hafði leitt í hálfleik 15-10. Eftir venjulegan leiktíma var gripið til vítakeppni þar sem Valur hafði betur 6-5.

Markaskorarar Selfoss voru Einar Sverrisson með 10 mörk, Matthías Örn Halldórsson 6, Atli Kristinsson 4, Einar Pétur Pétursson 1, Gunnar Ingi Jónsson 1, Ómar Helgason 1 og Jóhann Erlingsson 1. Helgi Hlynsson varði 19/1 skot.

Selfyssingurinn Valdimar Þórsson var markahæstur Valsara með 8 mörk en Finnur Jóhannsson og Adam Seferovic skoruðu báðir 5 mörk.

Í leik um 3. sætið mættust FH og ÍR þar sem FH sigraði örugglega, 43-32. Markahæstur FH-inga var Bjarki Jónsson með 11 mörk en Ólafur Gústafsson og Selfyssingurinn Ragnar Jóhannsson skoruðu báðir 6 mörk. Hjá ÍR skoraði Sturla Ásgeirsson 9 mörk og þeir Jónatan Vignisson og Ólafur Sigurgeirsson 4.

Í úrslitaleik mótsins mættust Afturelding og Fram. Leiknum lauk með sigri Aftureldingar eftir vítakeppni 33-30. Davíð Svansson markvörður Aftureldingar fór á kostum í vítakeppninni og varði tvö víti Framara. Staðan eftir venjulegan leiktíma var 29-29.

Örn Ingi Bjarkason var markahæstur hjá Aftureldingu með 8 mörk og Sverrir Hermannsson skoraði 5. Sigurður Eggertsson skoraði 7 mörk fyrir Fram og Stefán Stefánsson 5.

Í lok móts voru veitt einstaklingsverðlaun en markahæsti leikmaður mótsins var Björgvin Hólmgeirsson ÍR með 24 mörk. Davíð Svansson Aftureldingu var valinn besti markvörðurinn og liðsfélagi hans, Sverrir Hermannsson besti varnarmaðurinn. Besti sóknarmaður var valinn Selfyssingurinn Einar Sverrisson og besti leikmaður mótsins var Jóhann Gunnar Einarsson, Fram.

Lokaniðurstaða mótsins
1. sæti Afturelding
2. sæti Fram
3. sæti FH
4. sæti ÍR
5. sæti Valur
6. sæti Selfoss