Aftur tapaði Selfoss með einu

Lokaumferð riðlakeppni Ragnarsmótsins í handbolta fór fram í kvöld. ÍR lagði Selfoss 24-25 og ÍBV vann Gróttu 32-26.

Leikur Selfoss og ÍR var hörkuviðureing þar sem Selfoss leiddi í hálfleik, 13-11, en ÍR-ingar náðu að snúa leiknum sér í vil í seinni hálfleik og sigra, 24-25. Andri Hrafn Hallsson var markahæstur Selfyssinga með 6 mörk, Sverrir Pálsson skoraði 5, Hörður Másson, Ómar Helgason og Ómar Magnússon 3, Jóhannes Eiríksson 2 og þeir Árni Felix Gíslason og Magnús Magnússon skoruðu sitt markið hvor. Hjá ÍR skoraði Arnar Birkir Hálfdánarson 6 mörk.

ÍBV hafði nokkuð góð tök á leiknum gegn Gróttu en Eyjamenn leiddu í hálfleik, 17-11 og lokatölur urðu 32-26. Andri Friðriksson og Theodór Sigurbjörnsson skoruðu báðir 7 mörk fyrir ÍBV en Vilhjálmur Hauksson skoraði 9 mörk fyrir Gróttu.

Á morgun verður leikið um sæti. Selfoss og Grótta mætast kl. 12 í leik um 5. sætið, HK og Afturelding spila um 3. sætið kl. 14 og úrslitaleikurinn milli ÍR og ÍBV hefst kl. 16. Allir leikir mótsins eru spilaðir í Vallaskóla.

Fyrri greinTap í fyrsta leik Hamars
Næsta greinUppskeruhátíð í dag