Aftur í deild þeirra bestu

Selfyssingar unnu sannfærandi sigur á Aftureldingu í uppgjöri toppliðanna í 1. deild karla í handbolta í kvöld. Lokatölur voru 27-24. Selfyssingar leika því í N1 deildinni á næsta ári eftir fjögurra ára fjarveru.

Baráttan var mikil í upphafi leiks en Selfyssingar náðu ekki flugi í sóknarleiknum framan af. Staðan var 5-5 þegar gestirnir tóku á sprett og náðu fimm marka forskoti, 8-13. Þá kom Birkir Fannar Bragason inn í markið hjá Selfossi og byrjaði á að verja fjögur skot í röð. Selfoss náði 6-1 leikkafla á síðustu fimm mínútum fyrri hálfleiks og Atli Kristinsson jafnaði, 14-14, úr hraðaupphlaupi áður en hálfleiksflautan gall.

Í upphafi seinni hálfleiks komust gestirnir yfir aftur enda vel studdir á áhorfendapöllunum, þrátt fyrir að vera í minnihluta. Mjaltavélin fór hins vegar að malla þegar leið á leikinn og á lokamínútunum ætlaði allt að verða vitlaust á pöllunum. Selfossvörnin hélt vel með Ómar Helgason og Baldur Þór Elíasson fyrir miðju en maður leiksins, Birkir Fannar Bragason, hélt áfram að verja eins og vitleysingur að baki vörninni.

Afturelding náði að minnka muninn í tvö mörk, 25-23, þegar tvær mínútur voru eftir en klúðruðu eftir það tveimur sóknum. Ragnar Jóhannsson og Baldur Þór skoruðu síðustu mörk Selfoss og tryggðu sanngjarnan sigur.

Mörk Selfoss: Atli Kristinsson 9, Ragnar Jóhannsson 6, Hörður Bjarnarson 3, Ívar Grétarsson 3, Árni Steinn Steinþórsson 3, Hörður Másson 1, Baldur Elíasson 1, Helgi Héðinsson 1.

Markvarsla: Birkir Fannar varði 16/1 skot (59%) og Sebastian varði 6 skot (32%).