Aftur drama í uppbótartíma

Ægismenn töpuðu fyrir Berserkjum, 2-1, þegar liðin mættust á Víkingsvellinum í kvöld í 3. deild karla í knattspyrnu.

Það var hart barist í leiknum en Berserkir komust yfir á 31. mínútu með marki eftir aukaspyrnu. Staðan var 1-0 í hálfleik en strax á 4. mínútu síðari hálfleiks jafnaði Milan Djurovic fyrir Ægi.

Þannig stóðu leikar allt fram í uppbótartíma. Ægismenn fengu reyndar nokkur ágæt færi í síðari hálfleik en Berserkir voru fastir fyrir og Ægismenn að sama skapi pirraðir.

Á 94. mínútu leiksins brutu Ægismenn af sér inni í teig en dómarinn lét leikinn halda áfram og sóttu Berserkir fast að marki Ægis í dágóðan tíma áður en sóknin rann út í sandinn. Þá taldi dómarinn ráðlegt að flauta víti á brotið. Sigurmarkið kom úr spyrnunni og Ægismenn gengu svekktir af velli.

Annan leikinn í röð fá Ægismenn á sig mark í uppbótartíma en í fyrstu tveimur leikjunum skoruðu þeir sjálfir sigurmark í uppbótartíma.

Hörð barátta er um efstu sætin í B-riðlinum en með sigrinum fóru Berserkir á toppinn með 13 stig. Þróttur Vogum, KFK og Ægir eru öll með 7 stig og eiga leik til góða á toppliðið.

Fyrri grein„Þeir litu út eins og Íslandsmeistarar“
Næsta greinÁrborg á toppnum eftir sigur á Hvolsvelli