Afsökunarbeiðni í ljósi nýrra upplýsinga

Stjórn knattspyrnudeildar Hamars sendi frá sér tilkynningu í kvöld þar sem hún biðst afsökunar á viðbrögðum vallarstarfsmanns á leik Hamars og KF í 2. deild karla á laugardag.

Gæslumaðurinn hrinti áhorfanda sem var kominn innfyrir línu sem afmarkar völlinn og áhorfendasvæðið. Hamar sendi frá sér yfirlýsingu á sunnudag þar sem atvikinu var lýst og harmað að drukknum áhorfendum hafi verið hleypt inn á leikinn en eftir að myndband af því birtist á Facebook í gærkvöldi hefur stjórn knattspyrnudeildarinnar nú skipt um gír og beðist afsökunar á viðbrögðum gæslumannsins.

“Í ljósi nýrra upplýsinga um atburð sem varð á leik Hamars og KF sl. laugardag, biðst stjórn knattspyrnudeildar Hamars afsökunar á viðbrögðum vallarstarfsmannsins síns. Í yfirlýsingu sem send var á fjölmiðla, byggðist lýsing á þessum tiltekna atburði á röngum upplýsingum sem stjórninni voru veittar. Biður stjórn knattspyrnudeildar Hamars hlutaðeigandi afsökunar vegna þess og óskar um leið liðsmönnum, aðstandendum og öðrum sem tengjast liði KF til hamingju með sætið í 1. deild að ári og óskar þeim góðs gengis innan vallar sem utan um ókomna framtíð,” segir í tilkynningu frá stjórninni í kvöld.

Í fréttum RÚV í kvöld kom fram að stuðningsmaðurinn hyggðist kæra gæslumanninn vegna atviksins en unnið er að sáttum í málinu.