Áfram íþróttaæfingar hjá börnum og unglingum á Selfossi

Ungir Selfyssingar á fótboltaæfingu í síðustu viku. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Aðalstjórn Umf. Selfoss hefur tekið þá ákvörðun að halda áfram æfingum hjá börnum og ungmennum innan deilda félaganna.

Ákvörðun þessi er tekin með hliðsjón af því að áfram verði hægt að halda úti starfi í leik- og grunnskólum. Vill félagið leggja sitt lóð á vogarskálar þess að sem minnst röskun verði á daglegu lífi barna og ungmenna sem stunda æfingar hjá deildum þess. Til að svo geti orðið telur félagið rétt að halda áfram að bjóða upp á þá þjónustu sem félagið veitir.

Æfingar kunna þó að vera með breyttu formi og munu taka mið af leiðbeiningum og ákvörðunum stjórnvalda hverju sinni. Jafnframt verða gerðar ráðstafanir til að þrífa og sótthreinsa byggingar eftir hvern dag.

Allar æfingar munu falla niður hjá félaginu á morgun, mánudag, og verður dagurinn notaður til að skipuleggja fyrirkomulag æfinga þannig að þær uppfylli skilyrði stjórnvalda gagnvart samkomubanni.

Nánari upplýsingar verða sendar til foreldra og forráðamanna síðdegis á mánudag þar sem fram koma upplýsingar um skipulag í kringum æfingar. Ungmennafélag Selfoss leggur ríka áherslu á að lokaákvörðun um að senda iðkendur á æfingar er ávallt undir hverju og einu foreldri/forráðamanni komið.

Fyrri greinSkólahald fellt niður í Hveragerði til 23. mars
Næsta grein„Unnið allan sólarhringinn en það dugir ekki til“