Afmælisbarnið tryggði sigurinn

Brenna Lovera var markadrottning efstu deildar í fyrrasumar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Kvennalið Selfoss vann sinn fyrsta sigur í Lengjubikarnum í knattspyrnu í vor þegar Tindastóll kom í heimsókn á gervigrasið á Selfossi í dag.

Selfoss var sterkari aðilinn í leiknum allan tímann en mörkin urðu þó ekki mörg. Á 13. mínútu komst Selfoss í 1-0 eftir gott spil frá aftasta manni. Bergrós Ásgeirsdóttir brunaði með boltann upp vinstri kantinn og sendi inn í teig á Brennu Lovera sem skoraði af öryggi á 25 ára afmælisdeginum sínum.

Selfoss var nær því að bæta við mörkum og gerðu á köflum harða hríð að marki Tindastóls, sérstaklega í fyrri hálfleiknum. Seinni hálfleikurinn var öllu rólegri og mörkin urðu ekki fleiri.

Lokatölur 1-0 og Selfoss lyftir sér upp í 5. sæti síns riðils með 3 stig.

Fyrri greinGestirnir hertu tökin í seinni hálfleik
Næsta greinSterkur sigur hjá Hamri-Þór