Afleitur lokakafli hjá Hamri

Everage Richardson skoraði 25 stig og sendi 10 stoðsendingar í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar er 2-1 undir í einvíginu gegn Hetti í úrslitakeppni 1. deildar karla í körfubolta eftir þriðja leikinn sem leikinn var í Hveragerði í kvöld.

Leikurinn var mjög kaflaskiptur en jafn heilt yfir, þangað til kom að lokakaflanum þar sem allt gekk á afturfótunum hjá Hamri.

Höttur hafði frumkvæðið í 1. leikhluta en Hamar lokaði honum vel, skoraði 11 síðustu stigin og jafnaði 29-29. Áhlaup Hamars hélt áfram í upphafi 2. leikhluta og undir lok hans voru Hvergerðingar komnir með 12 stiga forskot. Staðan í hálfleik var hins vegar 58-52.

Gestirnir frá Egilsstöðum skoruðu fyrstu sjö stigin í seinni hálfleik og komust yfir en Hvergerðingar svöruðu strax fyrir sig og höfðu frumkvæðið allt þar til rúmar þrjár mínútur voru liðnar af 4. leikhluta.

Þá kom afleitur kafli hjá Hamri og gestirnir gerðu 20-2 áhlaup á tæpum fimm mínútum. Staðan var þá orðin 87-100 og lítil von fyrir Hamar að svara fyrir sig. Hattarmenn héldu haus og lokatölur urðu 94-105.

Liðin mætast næst á Egilsstöðum á laugardag og þar þurfa Hamarsmenn sigur til þess að knýja fram oddaleik.

Tölfræði Hamars: Everage Richardson 19/7 stoðsendingar, Julian Rajic 18/10 fráköst/5 stoðsendingar, Oddur Ólafsson 17/5 fráköst/5 stoðsendingar, Kristófer Gíslason 13/4 fráköst, Marko Milekic 8/7 fráköst, Geir Elías Úlfur Helgason 5, Ragnar Jósef Ragnarsson 5, Florijan Jovanov 4/7 fráköst, Daníel Sigmar Kristjánsson 3, Dovydas Strasunskas 2.

Fyrri greinFangaverðir sýnd í Bíóhúsinu á Selfossi
Næsta grein134 milljónir króna í verkefni á Suðurlandi