Ævintýralegur sigur Ægismanna

Ágúst Karel Magnússon fagnar sigurmarki sínu ásamt Antoni Breka Viktorssyni og Ragnari Páli Sigurðssyni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Fegurðin við bikarkeppnina í knattspyrnu kristallaðist í leik Ægis og Fylkis á Þorlákshafnarvelli í kvöld. Sigurmark í uppbótartíma fleytti 2. deildarliði Ægis í 8-liða úrslitin en 1. deildarlið Fylkis situr eftir.

Eftir flenginguna í deildinni gegn Njarðvík í síðustu viku setti Nenad Zivanovic, þjálfari Ægis, lykilmenn á bekkinn. Þeir sem fengu traustið þökkuðu fyrir það og börðust eins og ljón í stórskemmtilegum leik.

Leikurinn var galopinn allan tímann og þó að Fylkismenn hafi sótt meira þá fengu Ægismenn betri færi, nokkur dauðafæri, en sóknarmenn beggja liða voru lengst af í krummafót og komu boltanum ekki í netið.

Staðan var 0-0 í hálfleik og seinni hálfleikurinn spilaðist svipað og sá fyrri. Á lokakaflanum settu Ægismenn ferska fætur inná og það skilaði árangri. Cristofer Rolin komst í dauðafæri á 88. mínútu og setti boltann í þverslána en fimm mínútum síðar, á þriðju mínútu uppbótartíma, áttu Ægismenn snarpa sókn þar sem varamaðurinn Ágúst Karel Magnússon lét vaða að marki fyrir utan vítateig og smellti boltanum í netið.

Fylkir fékk ekki langan tíma til að svara fyrir sig og Ægismenn fögnuðu skiljanlega gríðarlega í leikslok, lokatölur 1-0.

Fyrri greinÍbúar Árborgar orðnir 11 þúsund
Næsta greinHulda snýr heim