„Ætluðum að keyra yfir þá“

Elvar Örn Jónsson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

„Mér líður mjög vel. Þetta var glæsileg liðsframmistaða hér í dag og stuðningurinn frábær. Strákarnir í Skjálfta voru frábærir og höllin var full, stemmningin frábær, þetta var bara æðislegt alltsaman,“ sagði Elvar Örn Jónsson, markahæsti maður Selfoss í sigrinum á Val, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

Selfoss sigraði örugglega í leik þrjú í kvöld, 29-26, og sópaði Val 3-0 út úr úrslitakeppninni.

„Við vorum bara betri á úthaldinu. Þeir detta aðeins niður en við héldum okkar striki. Við erum í toppformi og við höldum út og liðið var bara frábært í kvöld. Pawel var flottur í markinu í seinni hálfleik, hann varði nokkra flotta bolta og svo vorum við agaðir í sókninni,“ bætti Elvar við.

Selfoss og Valur urðu í 2. og 3. sæti í Olísdeildinni og því áttu kannski ekki margir von á því að Selfyssingar myndu mæta með sópinn og taka einvígið 3-0.

„Þetta voru alltsaman hörkuleikir og við unnum fyrstu tvo leikina bara með einu marki. Þetta hefði alveg getað dottið þeirra megin en við vorum sterkari á lokakaflanum í öllum þremur leikjunum. Við ætluðum bara að klára þetta 3-0 og reyna að ná aðeins meiri hvíld fyrir úrslitin. Við lentum 2-0 undir á móti Fjölni þegar við fórum upp þannig að við vissum alveg hvernig Valur myndi mæta til leiks í kvöld. Við mættum bara klárir og ætluðum að keyra yfir þá,“ sagði Elvar Örn að lokum.

Fyrri greinSópurinn á lofti á Selfossi
Næsta greinMeistararnir sterkari á Selfossi