Ægismenn sterkir á lokakaflanum

Sigurður Óli Guðjónsson, skoraði fyrir Ægi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ægir kom til baka eftir að hafa lent 1-2 undir og sigraði Einherja 4-2 í 3. deild karla í knattspyrnu í dag. Ægismönnum veitti ekki af stigunum því þeir eru í harðri toppbaráttu ásamt fjórum öðrum liðum.

Brynjólfur Þór Eyþórsson kom Ægi yfir strax á 5. mínútu leiksins en Einherji jafnaði metin undir lok fyrri hálfleiks.

Staðan var 1-1 í leikhléi og þannig stóðu leikar fram á 70. mínútu að Einherji komst yfir, 1-2.

Ægismenn svöruðu hins vegar frábærlega fyrir sig. Þeir fengu vítaspyrnu á 72. mínútu sem Nemanja Lekanic skoraði úr og þremur mínútum síðar kom Sigurður Óli Guðjónsson Ægismönnum yfir. Lekanic innsiglaði svo 4-2 sigur Ægis þegar fjórar mínútur voru til leiksloka.

Ægir hefur nú 32 stig í 3. sæti deildarinnar en Þorlákshafnarliðið á 1-2 leiki til góða á liðin fyrir ofan sig, sem eru Höttur/Huginn með 35 stig og Sindri með 33 stig.

Fyrri greinSelfyssingar björguðu sér frá falli
Næsta greinÞyrla sótti göngumann á Hlöðufell