Ægismenn skoruðu sautján mörk

Pétur Smári Sigurðsson skoraði sex mörk fyrir Ægi og hér fær hann sturtu eftir leik frá Pálma Þór Ásbergssyni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ægir vann stærsta deildarsigur í sögu félagsins þegar liðið lagði Kóngana 17-0 á Þorlákshafnarvelli í kvöld í D-riðli 4. deildar karla í knattspyrnu. KFR vann Kríu sömuleiðis í kvöld.

Leikurinn í Þorlákshöfn var leikur kattarins að músinni og eftir 25 mínútna leik höfðu Kóngarnir gefið hásætið eftir og áttu aldrei tilkall til þess aftur. Þá var staðan orðin 5-0 en Ægismenn gáfu ekkert eftir og leiddu 9-0 í leikhléi. Mörkin komu á færibandi í seinni hálfleik og á lokamínútunum voru Kóngarnir farnir að hvetja dómarann til þess að flauta leikinn af og stöðva niðurlæginguna. 

Pétur Smári Sigurðsson var markahæstur Ægismanna, hann skoraði sex mörk í leiknum, Pálmi Þór Ásbergsson og Atli Rafn Guðbjartsson skoruðu báðir tvö mörk og þeir Goran Potkozarac, Þorkell Þráinsson, Ásgrímur Þór Bjarnason, Sigurður Óli Guðjónsson, Hilmar Darri Benjamínsson, Stefan Dabetic og Anton Breki Viktorsson skoruðu allir eitt mark.

Þetta er stærsti sigur Ægis í deildarkeppni frá stofnun félagsins en stærstu sigrarnir fyrir leikinn í kvöld voru 12-1 og 11-0 sigrar á Hvatberum í D-deildinni árið 1993.

Helgi með sigurmark KFR
KFR og Kría eru einnig í D-riðlinum en liðin mættust í hörkuleik á Hvolsvelli í kvöld. KFR var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik en tókst ekki að nýta færin fyrr en Elimar Hauksson kom þeim yfir um miðjan fyrri hálfleikinn með marki eftir hornspyrnu. Staðan var 1-0 í hálfleik en Kría jafnaði úr vítaspyrnu í seinni hálfleik en Helgi Ármannsson skoraði sigurmark KFR aðeins mínútu síðar og þar við sat.

KFR er í 2. sæti D-riðilsins með 7 stig en Ægir er í 3. sætinu með 4 stig og á leik til góða á liðin fyrir ofan.

Fyrri greinLögreglan leitaði að erlendum kindahrelli
Næsta greinTokic jafnaði á síðustu stundu