Ægismenn og Hamarskonur úr leik í bikarnum

Ægismenn fagna. Mynd úr safni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ægismenn eru úr leik í Mjólkurbikar karla í knattspyrnu og Hamarskonur úr leik í Mjólkurbikar kvenna en bæði lið töpuðu leikjum sínum í 2. umferð í kvöld.

Ægir mætti Augnabliki á útivelli en bæði lið leika í 3. deildinni í sumar. Augnablik komst yfir með marki úr vítaspyrnu á 18, mínútu leiksins og staðan var 1-0 í hálfleik. Róðurinn þyngdist nokkuð fyrir Ægismenn um miðjan leik því Stefan Dabetic fékk að líta rauða spjaldið og Ægismenn því manni færri allan seinni hálflekkinn. Augnablikar gengu á lagið og skoruðu þrjú mörk í seinni hálfleiknum án þess að Ægir svaraði fyrir sig. Lokatölur 4-0.

Kvennalið Hamars mætti Grindavík á útivelli og þar var leikurinn markalaus lengi vel. Staðan var 0-0 í hálfleik en á 72. mínútu kom Ölfusingurinn Írena Björk Gestsdóttir Grindvíkingum yfir. Korteri síðar komst Grindavík í 2-0 og þar með var vonin orðin lítil fyrir Hamar.

Önnur umferð bikarkeppninnar heldur áfram um helgina. Á morgun mætir KFR Vestra í Borgarnesi en stórleikur umferðarinnar er viðureign Stokkseyrar og Hauka á gervigrasinu á Selfossi á sunnudag.

Fyrri greinStyrmir sterkur í sigri á Val
Næsta greinSelfyssingar í góðum gír