Ægismenn öflugir á heimavelli

Brynjólfur Þór Eyþórsson skoraði fyrir Ægi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ægir vann gríðarlega mikilvægan sigur í toppbaráttu 3. deildar karla í knattspyrnu á heimavelli í Þorlákshöfn í kvöld þegar Elliði kom í heimsókn.

Ægismenn voru í góðum gír í fyrri hálfleik, Alexander Aron Davorsson kom þeim yfir á 18. mínútu og undir lok fyrri hálfleiks bættu Stefan Dabetic og Brynjólfur Þór Eyþórsson við mörkum. 3-0 í hálfleik.

Mörkin komu ekki á færibandi í seinni hálfleiknum en gestirnir náðu að minnka muninn í 3-1 þegar tíu mínútur voru eftir. Pétur Smári Sigurðsson sá hins vegar til þess að Ægir sigraði 4-1, þegar hann kom boltanum í netið á lokamínútunni.

Ægir er nú í 2. sæti deildarinnar með 23 stig en næstu tvö lið þar á eftir, KFG og Augnablik, eiga leik til góða. Þar á eftir kemur Elliði í 5. sætinu með 21 stig.

Fyrri greinSpesían bauð lægst í jarðvinnu við nýjan leikskóla
Næsta greinVeigar og Dagur með þrjú gull