Ægismenn með yfirlýsingu

Cristofer Rolin skoraði fyrir Ægi í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ægir lyfti sér upp í 2. sæti 2. deildar karla í knattspyrnu í dag með glæsilegum 3-0 sigri á Þrótti R á heimavelli.

Fyrir leikinn voru Þróttarar í 2. sæti, þremur stigum á undan Ægi, þannig að um sannkallaðan sex stiga leik var að ræða.

Ægismenn léku við hvern sinn fingur í kvöld og pökkuðu Þrótturum saman. Renato Punyed kom Ægi yfir á 39. mínútu og Ágúst Karel Magnússon tvöfaldaði forskotið á lokamínútu fyrri hálfleiks.

Staðan var 2-0 í hálfleik en Cristofer Rolin gerði svo út um leikinn með þriðja marki Ægis á sjöundu mínútu síðari hálfleiks og þeir gulu sigldu sigrinum heim eftir það.

Ægir og Þróttur eru nú jöfn með 25 stig, en Ægir er ofar á fleiri mörkum skoruðum. Njarðvíkingar hafa sex stiga forskot í toppsætinu.

Fyrri greinÞórsarar í Evrópukeppnina
Næsta greinSelfoss aftur á toppinn