Ægismenn í góðum málum – Spenna framundan hjá KFR og Árborg

Ásgrímur Þór Bjarnason skoraði þrennu fyrir Ægi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ægir vann öruggan sigur á Kríu, KFR lagði KFS og Árborg gerði jafntefli gegn Vatnaliljunum í leikjum kvöldsins í 4. deild karla í knattspyrnu.

Ásgrímur Þór Bjarnason kom Ægi yfir á 24. mínútu gegn Kríu en Ægir skoraði svo fjögur mörk á síðustu átta mínútum fyrri hálfleiks. Pálmi Þór Ásbergsson kom Ægi í 2-0 á 37. mínútu og á eftir fylgdu mörk frá nýja leikmanninum Milan Zorica og tvö frá Ásgrími Þór sem var kominn með þrennu fyrir leikhlé. Staðan var 5-0 í hálfleik en seinni hálfleikur var markalaus lengst af. Pétur Smári Sigurðsson skoraði fimmta mark Ægis á 80. mínútu en Kría minnkaði muninn í 5-1 á lokamínútu leiksins og þær urðu lokatölurnar.

Það var nágrannaslagur á Hvolsvelli þar sem KFR tók á móti KFS frá Vestmannaeyjum. Benedikt Óskar Benediktsson kom KFR í 1-0 á lokamínútu fyrri hálfleiks og strax í upphafi þess seinni skoraði Helgi Ármannsson 2-0. KFS minnkaði muninn í 2-1 á 57. mínútu og fleiri urðu mörkin ekki í leiknum.

Leikur Árborgar og Vatnaliljanna var markalaus í fyrri hálfleik en á 66. mínútu komust gestirnir yfir. Daníel Ingi Birgisson jafnaði metin fyrir Árborg tíu mínútum síðar og þar við sat. Lokatölur á Selfossi 1-1.

Staðan í D-riðlinum er æsispennandi en þar er Ægir með toppsætið nokkuð örugglega í sínum höndum með 23 stig og leik til góða en í 2.-3. sæti eru Elliði og KFR með 19 stig og Elliðamenn með aðeins betra markahlutfall. Tvö efstu liðin í riðlinum fara í úrslitakeppnina.

Á meðan Árborg gerði jafntefli í A-riðlinum sigraði Ýmir topplið Bjarnarins þannig að Ýmir fór uppfyrir Árborg með 22 stig í 2. sæti en Árborg er með 21 stig í 3. sæti, þegar þrjár umferðir eru eftir af deildarkeppninni.

Fyrri greinHvetur veiðimenn til að sleppa sem flestum löxum
Næsta greinAllir elska hamborgarana mína