Ægismenn fóru stigalausir úr Laugardalnum

Renato Punyed lagði upp mark Ægis. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ægir heimsótti Þrótt í Lengjudeild karla í knattspyrnu í Laugardalinn í kvöld. Þróttur náði að kreista fram 3-1 sigur á lokakaflanum.

Leikurinn var jafn framan af og bæði lið höfðu fengið ágæt færi áður en Þróttarar komust yfir á 20. mínútu eftir klafs í vítateig Ægis. Ægismenn svöruðu fyrir sig á 39. mínútu þegar Renato Punyed átti skot í stöngina og frákastið fór í bakið á markmanni Þróttar og þaðan í netið. Sjálfsmark.

Staðan var því 1-1 í hálfleik og baráttan hélt áfram í seinni hálfleik. Þróttarar voru meira með boltann en Ægir átti fínar sóknir og Daníel Smári Sigurðsson skaut yfir úr dauðafæri á 71. mínútu. Hann var svo aftur á ferðinni í eigin vítateig átta mínútum síðar, þar sem hann braut á leikmanni Þróttar og heimamenn fengu vítaspyrnu. Þróttarar skoruðu úr spyrnunni og bættu svo við þriðja markinu í uppbótartímanum.

Með sigrinum lyfti Þróttur sér uppfyrir Ægi, í 8. sætið með 4 stig en Ægir er í 11. sætinu með 1 stig.

Fyrri greinVel heppnaður ársfundur Landbúnaðarháskóla Íslands
Næsta greinÍbúakönnun um breytt deiliskipulag í miðbæ Selfoss