Ægismenn fóru illa með færin

Anton Breki Viktorsson skoraði fyrir Ægi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ægir tók á móti toppliði Njarðvíkur í 2. deild karla í knattspyrnu á Þorlákshafnarvelli í kvöld.

Leikurinn byrjaði fjörlega og Njarðvíkingar höfðu átt stangarskot áður en Anton Breki Viktorsson kom Ægismönnum yfir með skallamarki uppúr hornspyrnu á 8. mínútu. Forysta Ægis entist þó ekki nema í fimm mínútur því gestirnir jöfnuðu með skalla eftir aukaspyrnu á 13. mínútu.

Ægismenn sóttu nokkuð stíft með þéttan vind í bakið í fyrri hálfleik en tókst ekki að skora og því var það skellur fyrir þá að gestirnir komust yfir með enn einu skallamarkinu eftir hornspyrnu á lokamínútu fyrri hálfleiks.

Seinni hálfleikurinn var í járnum, Ægir lagði allt kapp á sóknina en markvörður Njarðvíkur var í miklu stuði og var raunar besti maður vallarins. Njarðvíkingar áttu nokkrar álitlegar skyndisóknir og þeim tókst að gera út um leikinn í uppbótartímanum með þriðja marki sínu og lokatölur urðu 1-3.

Ægir er áfram í 4. sæti deildarinnar með 30 stig en Njarðvík er á toppnum með 49 stig og hefur þegar tryggt sig upp um deild.

Fyrri greinFimm framtíðarleikmenn semja við Selfoss
Næsta greinStórtónleikar á Hvolsvelli í kvöld