Ægismenn deildarmeistarar eftir dramatíska lokaumferð

Ægismenn fagna sigri í 2. deildinni í Garðinum í dag. Ljósmynd/Ægir

Knattspyrnufélagið Ægir endurheimti sæti sitt í 1. deild karla í knattspyrnu eftir dramatískan 2-3 sigur á Víði í lokaumferð 2. deildarinnar í Garðinum í dag.

Á sama tíma mættust Grótta og Þróttur Vogum en þau ásamt Ægi áttu möguleika á að komast upp í dag. Grótta gerði fljótlega út um þann leik og því þurfti Ægir að minnsta kosti jafntefli til þess að tryggja sig upp.

Ægismenn fóru nokkuð torvelda leið í dag, þeir byrjuðu vel en Víðismenn voru fyrri til að skora úr skyndisókn undir lok fyrri hálfleiks. Bjarki Rúnar Jónínuson jafnaði fyrir Ægi í upphafi seinni hálfleiks en fjórum mínútum síðar komust Víðismenn aftur yfir.

Ægir þurfti mark og þá er ágætt að eiga markakóng deildarinnar innanborðs. Jordan Adeyemo jafnaði á 59. mínútu með sínu nítjánda marki í sumar. Ægismenn komnir í góð mál en þeir vildu meira og 2-3 sigurmark frá Daníel Þrastarsyni á sjöundu mínútu uppbótartímans tryggði þeim efsta sætið í deildinni. Bikar í hús í Höfninni og Ægir mun leika í 1. deildinni að ári, í annað sinn.

Fyrri greinSelfoss 2 í toppmálum í Grillinu
Næsta greinLíf og fjör í Hrunaréttum