Ægismenn á toppinn

Ásgrímur Þór Bjarnason kom Ægismönnum á bragðið. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ægir vann öruggan sigur á KFS í D-riðli 4. deildar karla í knattspyrnu í kvöld og tyllti sér með því í toppsæti riðilsins. KFR tapaði fyrir KÁ.

Upphafsmínúturnar voru fjörugar í Þorlákshöfn þar sem Ásgrímur Þór Bjarnason kom Ægi yfir strax á 4. mínútu, en einni mínútu síðar jöfnuðu Eyjamenn metin. Fleiri mörk voru ekki skoruð í fyrri hálfleik.

Ægir komst aftur yfir á upphafsmínútum seinni hálfleiks með sjálfsmarki KFS. Þorlákshafnaliðið lét kné fylgja kviði, Pétur Smári Sigurðsson kom Ægi í 3-1 á 75. mínútu og í uppbótartímanum tryggði Goran Potkozarac þeim gulu 4-1 sigur.

Það var talsvert minna skorað á Hvolsvelli í kvöld þar sem Knattspyrnufélag Ásvalla var í heimsókn. Úrslitin réðust á 70. mínútu þegar gestirnir skoruðu eina mark leiksins af vítapunktinum.

Ægir er nú í afsta sæti D-riðilsins með 10 stig að loknum fjórum umferðum en Rangæingar eru í 3. sætinu, sömuleiðis með 10 stig, en lakara markahlutfall og hafa leikið einum leik meira.

Fyrri greinSterkir keppendur á MÍ 15-22 ára á Selfossi
Næsta greinSjö sumarkiljur fyrir bókafólkið