Ægismenn á flugi

Stefan Dabetic skoraði þrennu í leiknum. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ægir vann öflugan útisigur þegar liðið mætti KFG í Garðabænum í 3. deild karla í knattspyrnu í kvöld. Lokatölur urðu 3-4.

Ægismenn byrjuðu leikinn af krafti og Stefan Dabetic kom þeim í 0-2 á fyrstu tuttugu mínútunum en bæði mörkin kömu úr aukaspyrnum. KFG jafnaði metin með tveimur mörkum á tveimur mínútum um miðjan fyrri hálfleik en Ægir fékk vítaspyrnu á lokamínútum fyrri hálfleiks og úr henni skoraði Dabetic og innsiglaði þar með þrennu sína.

Þorkell Þráinsson kom Ægi í 2-4 í upphafi seinni hálfleiks eftir hornspyrnu og hamagang í vítateig KFG. Ægismenn fengu fín færi í kjölfarið og hefðu getað gert út um leikinn en þess í stað fengu heimamenn vítaspyrnu þegar korter var eftir og skoruðu úr henni. Lokakaflinn var spennandi þar sem KFG reyndi mikið að finna jöfnunarmarkið, en Ægismenn héldu út og fögnuðu góðum sigri.

Ægir hefur unnið báða leiki sína í deildinni og eru á toppnum með fullt hús stiga, eins og Reynir Sandgerði.

Fyrri greinGuðrún Björk ráðin umhverfis- og garðyrkjustjóri
Næsta greinGÓSS í Þórsmörk á laugardagskvöld