Ægir vann sætan sigur á Þrótti Vogum í toppbaráttu 2. deildar karla í knattspyrnu í Vogunum í kvöld. Þetta var fyrsti tapleikur Þróttar í sumar.
Leikurinn var í járnum í fyrri hálfleik en Þróttarar komust yfir á lokamínútu fyrri hálfleiks. Ægismenn sváfu þá á verðinum í hornspyrnu og fengu mark á sig á fjærstönginni.
Staðan var 1-0 í hálfleik og baráttan hélt áfram í seinni hálfleiknum. Um hann miðjan jafnaði Atli Rafn Guðbjartsson metin með góðu marki og allt stefndi í jafntefli, þar til á þriðju mínútu uppbótartímans að Sigurður Óli Guðjónsson skoraði sigurmark Ægis.
Þrátt fyrir tapið eru Þróttarar í toppsæti deildarinnar með 15 stig en Ægir er í 2. sæti með 13 stig.