Ægir vann grannaslaginn – Stokkseyri komst áfram

Cristofer Rolin skoraði seinna mark Ægis. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Lið Ægis og Stokkseyrar eru komin áfram í 2. umferð Mjólkurbikars karla í knattspyrnu. Hamar og Uppsveitir eru úr leik.

Stórleikur dagsins var grannaslagur Ægis og Uppsveita sem fram fór á gervigrasinu á Selfossi. Þar var hart barist en svo fór að Ægismenn unnu öruggan sigur, 4-0. Cristofer Rolin braut ísinn á 28. mínútu og í kjölfarið fylgdu mörk frá Brynjólfi Eyþórsson og Elfari Ísak Halldórssyni, staðan 3-0 í hálfleik. Brynjólfur bætti svo við fjórða marki Ægis á 59. mínútu en skömmu áður hafði Rolin fengið rautt spjald eftir að hafa beitt júdóbrögðum inni á vellinum. Ægismenn mótmæltu þessu og fékk Baldvin Már Borgarsson, aðstoðarþjálfari, sömuleiðis að líta rauða spjaldið. Ægismenn spiluðu því megnið af seinni hálfleiknum manni færri – en það kom ekki að sök.

Ægir mætir Augnabliki í 2. umferðinni á útivelli næstkomandi föstudag.

Stokkseyringar í stuði
Stokkseyringar gerðu góða ferð í Bessastaðahrepp þar sem þeir unnu öruggan 0-5 sigur á KFB. Páll Dagur Bergsson kom Stokkseyringum yfir snemma leiks með góðu skallamarki og á eftir fylgdu tvö mörk frá Þórhalli Aroni Mássyni. Örvar Hugason kom svo Stokkseyri í 0-4 áður en hálfleiksflautan gall. Seinni hálfleikurinn var rólegri en Daníel Guðmundsson skoraði fimmta mark Stokkseyrar og KFB náði ekki að svara fyrir sig.

Stokkseyri fær erfitt verkefni í 2. umferðinni þegar 1. deildarlið Hauka kemur í heimsókn austur fyrir fjall eftir slétta viku.

Hamar tók á móti 1. deildarliði Vestra á gervigrasinu á Selfossi í dag og leikurinn var markalaus allt fram á 71. mínútu en þá komstu Vestramenn yfir. Gestirnir frá Ísafirði bættu við öðru marki á 84. mínútu og þriðja markið leit svo dagsins ljós í uppbótartíma en fram að því höfðu Hvergerðingar gert sig líklega, án árangurs. Lokatölur 0-3.

Stokkseyringar sáttir með sigurinn á Bessastaðavelli í dag. Ljósmynd/Stokkseyri
Fyrri greinRasimas skellti í lás
Næsta greinBaldur sá við gömlu félögunum