Ægir úr leik eftir prýðilega frammistöðu

Cristofer Rolin sækir að marki FH. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ægismenn eru dottnir úr leik í Mjólkurbikar karla í knattspyrnu eftir 1-3 tap gegn Bestudeildarliði FH í hörkuslag á Selfossvelli í dag.

Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik, FH var meira með boltann en Ægismenn áttu hættulegri færi og Bele Alomerovic átti meðal annars hörkuskot í þverslána á 41. mínútu.

Upphafsmínútur seinni hálfleiks voru líflegar og Ægismenn leituðu færa en fengu mark í bakið á 54. mínútu þegar Kjartan Kári Halldórsson skoraði eftir snarpa sókn FH. Eftir það var leikurinn undir stjórn FH. Þeir bættu við marki á 68. mínútu þegar þeir fengu hræódýra vítaspyrnu og Úlfur Ágúst Björnsson skoraði úr henni.

Leikurinn róaðist nokkuð eftir þetta en Ægismenn voru ekki hættir og Cristofer Rolin skoraði stórglæsilegt mark á 84. mínútu. Sá litli vonarneisti sem kviknaði þá hjá þeim gulu slökknaði strax í næstu sókn þegar Kjartan Kári skoraði aftur fyrir FH.

Fyrri greinGleðilegt sumar!
Næsta greinHamar í úrslit þriðja árið í röð