Ægir upp á fleiri mörkum skoruðum

Markaskorarinn Arilíus Óskarsson og Anton Breki Viktorsson fagna sigri á Egilsstöðum. Einar Ísak Friðbertsson eldhress í bakgrunninum.

Það var gríðarleg spenna í 3. deild karla í knattspyrnu í dag, þar sem Ægir, KFG og Sindri kepptust um að ná 2. sætinu í deildinni og þar með sæti í 2. deild að ári.

Ægir mætti deildarmeisturum Hattar/Hugins á Egilsstöðum og þeir gulu byrjuðu vel því Arilíus Óskarsson kom þeim yfir á 18. mínútu.

Staðan var 0-1 í hálfleik en heimamenn jöfnuðu metin á 58. mínútu. Sú staða varði þó skammt því Brynjólfur Þór Eyþórsson kom Ægi aftur í forystu á 69. mínútu.

Nú tók við dramatískur kafli þar sem Ægir og Höttur/Huginn fengu hvert dauðafærið á fætur öðru og um leið fréttist að KFG væri komið í 3-0 á móti Sindra. Sú staða hefði fleytt KFG upp um deild.

Spennan hélt áfram síðustu tíu mínúturnar en hagur Ægis vænkaðist heldur betur þegar sex mínútur voru eftir af leiknum en Sindra hafði þá tekist að skora tvö mörk á þremur mínútum gegn KFG og sú staða dugði Ægi til að ná 2. sætinu.

Ægismenn voru líklegri til að bæta við mörkum gegn Hetti/Huginn á lokakaflanum og þó að KFG breytti stöðunni í 4-2 undir lokin gegn Sindra þá breytti það engu og Ægismenn fögnuðu innilega þegar flautað var til leiksloka, eftir 1-2 sigur.

Ægismenn leika því í 2. deildinni að ári en liðinu hefur tekist að fara upp um tvær deildir á síðustu þremur keppnistímabilum.

Höttur/Huginn varð deildarmeistari með 42 stig, Ægir varð í 2. sæti með 41 stig og KFG í 3. sæti með 41 stig. Bæði Ægir og KFG voru með +13 mörk en Ægismenn fara upp á fleiri skoruðum mörkum, liðið skoraði 42 mörk í sumar en KFG skoraði 37 mörk.

Fyrri greinTilþrifalítið í lokaumferðinni
Næsta greinSelfoss áfram í Evrópubikarnum