Ægir tapaði forystunni í blálokin

Dimitrije Cokic. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ótrúlegar lokamínútur urðu Ægi að falli í kvöld þegar liðið tapaði 3-2 gegn Leikni í Breiðholtinu í Lengjudeild karla í knattspyrnu í kvöld.

Bæði lið áttu góðar sóknir áður en Sindri Björnsson kom Leikni yfir á 15. mínútu með þrumuskoti fyrir utan teig. Ægismenn voru ekki lengi að svara fyrir sig og Dimitrije Cokic skoraði frábært mark fimm mínútum síðar þegar hann vippaði boltanum yfir markvörð Leiknis. Á 27. mínútu skoraði svo Ivo Braz af vítapunktinum eftir að leikmaður Leiknis hafði handleikið boltann innan teigs.

Ægir hafði verðskuldaða 1-2 forystu í hálfleik en framan af seinni hálfleiknum voru Leiknismenn sprækari en Ægisvörnin réð við allt sem sóknarmenn Leiknis buðu uppá. Sóknir Ægis voru bitlausari en Cristofer Rolin slapp innfyrir á 70. mínútu og átti skot í hliðarnetið úr góðu færi.

Á lokamínútunum dró heldur betur til tíðinda. Ægismenn voru með sigurinn í augsýn þangað til á 85. mínútu að Omar Sowe jafnaði fyrir Leikni eftir snarpa sókn. Dramatíkin hélt áfram, bæði lið fengu dauðafæri undir lok venjulegs leiktíma en á 2. mínútu uppbótartímans fór boltinn í Ægismarkið eftir hamagang í teignum og var líklega um sjálfsmark að ræða.

Eftir ótrúlegar lokamínútur fögnuðu því Leiknismenn mikilvægum sigri í botnbaráttunni. Sú barátta heldur áfram á sunnudag þegar Ægir færi Njarðvík í heimsókn en þessi þrjú lið eru að berjast í neðri hlutanum, ásamt Selfossi og Vestra.

Fyrri greinKótelettan
Næsta greinÞyrla sótti ökklabrotinn ferðamann við Háafoss