Ægir og KFR unnu stórsigra

Brynjólfur Þór Eyþórsson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ægir og KFR röðuðu inn mörkum í leikjum gærdagsins í Lengjubikar karla í knattspyrnu. Bæði lið unnu sína leiki 5-2.

Ægir heimsótti 3. deildarlið Árbæjar í Árbæinn í B-deildinni. Bjarki Rúnar Jónínuson kom Ægi yfir strax á 5. mínútu en Árbær jafnaði tíu mínútum síðar. Brynjólfur Þór Eyþórsson var þó fljótur að koma Ægi yfir aftur og staðan var 1-2 í hálfleik. Ægismenn voru sterkari í seinni hálfleik, Ragnar Páll Sigurðsson skoraði tvívegis um miðjan seinni hálfleikinn áður en Árbær minnkaði muninn í 2-4 þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum. Brynjólfur Þór átti síðasta orðið, hann skoraði annað mark sitt í uppbótartímanum og tryggði Ægi 2-5 sigur.

Í C-deildinni mættust GG og KFR á Leiknisvellinum í Breiðholti. Rangæingar voru sterkari aðilinn og Francesco Li Vigni, Helgi Valur Smárason og Stefán Bjarki Smárason skoruðu allir í fyrri hálfleiknum. GG minnkaði muninn á 60. mínútu en Helgi Valur bætti við tveimur mörkum með skömmu millibili í kjölfarið. Þrennan frá Helga dugði til og ekki kom að sök að GG minnkaði muninn í uppbótartímanum, lokatölur 2-5.

Staðan í riðli Ægis í B-deildinni er þannig að Ægir er í 3. sæti með 9 stig og hafa lokið keppni en liðin fyrir neðan eiga öll leiki til góða. KFR er á toppi riðils-3 í C-deildinni með 6 stig og eru Rangæingar nánast búnir að vinna riðilinn fyrir lokaumferðina.

Fyrri greinSelfoss bikarmeistari í 6. flokki kvenna
Næsta greinBanaslys í Ásahreppi