Ægir og Hamar upp um deild

Dimitrije Cokic og félagar í Ægi eru komnir upp í Lengjudeildina. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ægismenn munu leika í Lengjudeild karla í knattspyrnu í sumar og Hamar færist upp í 4. deildina. Þetta varð ljóst eftir að stjórn KSÍ staðfesti að Kórdrengir munu ekki taka þátt í knattspyrnumótum sumarsins.

Kórdrengir léku í Lengjudeildinni á síðasta tímabili og Ægismenn fá sæti þeirra, þar sem Ægir varð í 3. sæti í 2. deildinni. Uppgangur Ægis síðustu ár er mjög áhugaverður en liðið lék í 4. deildinni árið 2019 og hefur síðan rokið upp töfluna.

Brotthvarf Kórdrengja hefur áhrif í öllum neðri deildum Íslandsmótsins og meðal annars mun Hamar flytjast úr 5. deildinni upp í 4. deildina.

Það verða því alvöru nágrannaslagir í Lengjudeildinni milli Selfoss og Ægis í sumar. Hrvoje Tokic og félagar í Ægi munu taka á móti Selfyssingum í Þorlákshöfn, strax í 4. umferð þann 26. maí.

Hamarsmenn fá líka verðugt verkefni í nýju 4. deildinni en meðal andstæðinga þeirra þar eru Uppsveitir og Árborg.

Fyrri greinÞórsarar eru vaknaðir
Næsta greinSlæm byrjun í seinni hálfleik gerði út um vonir Selfoss